Þó að leikstjórinn Jon Favreau, sem leikstýrði Iron Man 1 og 2, hafi ákveðið að láta stjórntaumana í Iron Man 3 í hendurnar á leikstjóranum Shane Black, þá þýðir það ekki að Favreau hafi ekki viljað vinna meira með Járnmanninum sjálfum, Robert Downey Jr..
Variety kvikmyndaritið segir frá því að Downey Jr. hafi nú bæst í leikarahópinn í næstu mynd Favreau, Chef, sem við sögðum frá hér um daginn.
Um er að ræða „litla“ sjálfstætt framleidda mynd, sem samkvæmt Variety verður kynnt á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem hefst í næstu viku.
Tökur myndarinnar eiga að hefjast í júlí nk. í Los Angeles.
Myndin fjallar um matreiðslumann, sem Favreau mun leika, sem hættir í vinnunni og stofnar veitingahús á hjólum ( e. Food Truck ) til að „endurheimta listrænan sess sinn“.
Sofia Vergara úr Modern Family, John Leguizamo og Bobby Cannavale eru einnig á meðal leikenda, en líklega er Downey Jr. nú orðin lang skærasta stjarnan í hópnum.
Ekki er vitað hvaða hlutverk Downey Jr. mun leika í myndinni.