Downey Jr. er best launaður í Avengers

Hollywood Reporter hefur birt áætlaðar tölur yfir laun leikaranna í The Avengers, en myndin hefur nú þegar brotið blað þegar kemur að aðsóknartölum og hreinum hagnaði kvikmyndar í fullri lengd. Það sem kemur kannski hvað mest á óvart er hversu vel Robert Downey Jr. er launaður samanborið við meðleikara sína.

Chris Hemsworth, Mark Ruffalo, Chris Evans og Jeremy Renner fá 2-3 milljónir dollara á haus fyrir að leika í myndinni á meðan að Scarlett Johansson og Samuel L. Jackson fá 5-6 milljónir dollara. Hins vegar fær Robert Downey Jr. 50 milljónir dollara fyrir að leika í The Avengers (!).

 

Ástæðan ku vera sú að eftir velgengni Iron Man 1 var Downey Jr. harður í horn að taka í samningaviðræðum. Honum tókst, ásamt umboðsmanni sínum, að sannfæra Marvel um að greiða sér árangurstengda bónusa í komandi Marvel myndum sem hann myndi leika í. Því fær Downey Jr. ákveðna prósentu af tekjum Avengers-myndarinnar. Marvel eru sagðir hugsa vel um kostnað myndanna sinna og því fá leikarar venjulega ákveðna greiðslu á hverja mynd sem hækkar að einhverju leyti ef leikarinn birtist í fleiri en einni mynd.

Launakostnaður Downey Jr. er samt ekkert einsdæmi í Hollywood. Sögusagnir herma að Johnny Depp sitji á rúmum 250 milljónum dollara eftir Pirates of the Caribbean myndirnar (ekki furða að hann hafi samþykkt að leika þessum ömurlegu framhaldsmyndum), og Michael Bay fékk auðvitað 80 milljónir dollara fyrir að leikstýra fyrstu Transformers myndinni. Samt, vel gert Róbert.

Stikk: