Hrollvekjan The Nun, sem er hluti af The Conjuring myndheiminum, sló í gegn um helgina bæði í Bandaríkjunum og á alþjóðamarkaði, en myndin stefnir í 77,5 milljóna dala tekjur utan Bandaríkjanna yfir helgina alla.
Conjuring myndheimurinn samanstendur af tveimur Conjuring hrollvekjum, tveimur Annabelle myndum, og svo The Nun.
Þetta þýðir að myndin er sú aðsóknarmesta af öllum myndum úr myndaflokknum á frumsýningarhelgi til þessa. Af 60 löndum þar sem myndin var tekin til sýningar um helgina, þá fór hún í efsta sæti aðsóknarlistans í 54 löndum.
Á morgun fáum við að sjá hvernig myndinni gekk hér á landi.
Tekjur myndarinnar í Bandaríkjunum námu 54 milljónum dala yfir helgina alla, sem þýðir að samtals hefur myndin rakað saman rúmlega 131 milljón bandaríkjadala.
Myndin hefur slegið fleiri met, því hún er aðsóknarmesta hrollvekja sögunnar á frumsýningarhelgi í 19 af löndunum 54, þar á meðal í Brasilíu, Indónesíu, Spáni og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Í 45 löndum var myndin aðsóknarmeiri en nokkur önnur mynd í The Conjuring seríunni.
Fyrir framleiðslufyrirtæki myndarinnar, Warner Bros., þá er myndin aðsóknarmesta kvikmynd á frumsýningardegi á þessu ári í 26 löndum, þar á meðal í Brasilíu, Spáni, Svíþjóð og Indónesíu.