Bandaríski leikarinn Peter Dinklage, sem er þekktastur fyrir að fara með hlutverk Tyrion Lannister í þáttunum Game of Thrones, hefur verið ráðinn í endurgerð myndarinnar The Toxic Avenger. Frá þessu hefur víða verið greint í erlendu pressunni en staðfest er að Dinklage muni fara með titilhlutverkið góða.
Eins og mörgum kvikmyndaunnendum er kunnugt er upprunalega grín-hryllingsmyndin frá 1984 með þekktari kvikmyndum Troma kvikmyndaversins. Myndin kemur úr smiðju Íslandsvinarins Lloyds Kaufman, stofnanda Troma Entertainment, elsta óháða kvikmyndavers í sögunni.
Þeir Kaufman og Michael Herz, sem saman leikstýrðu upprunalegu myndinni, eru á meðal framleiðenda þessarar væntanlegu endurgerðar og verður sú mynd í höndum kvikmyndaversins Legendary. Hermt er að nýja útgáfan muni snúa mikið úr klisjum ofurhetjugeirans og er nálgunin sögð vera í líkingu við Deadpool-myndirnar.
Söguþráður The Toxic Avenger segir frá Melvin Junko, vandræðalegum, ungum húsverði sem starfar í heilsuklúbbnum í Tromaville. Vinsælu krakkarnir eru ekki hrifnir af honum, og búa því til hrekk á hans kostnað. Þessi tiltekni hrekkur mistekst, og breytist Melvin í afskræmdu ofurhetjuna The Toxic Avenger/Toxie eftir að hafa fallið ofan í fulla tunnu af eitruðum úrgangi.