Franska kvikmyndin Dheepan vann óvænt Gullpálmann í Cannes sem besta myndin. Leikstjóri hennar er Jacques Audiard og tók hann á móti þessum virtu verðlaunum á hátíðinni í dag.
Myndin fjallar um meðlim Tamíl tígranna sem flýr borgarastyrjöldina í Sri Lanka og reynir að fá hæli í Frakklandi með því að þykjast eiga fjölskyldu.
Í öðru sæti lenti Saul Fia frá Ungverjalandi og í því þriðja The Lobster frá Grikklandi.
Hou Hsiao-Hsien frá Thaílandi var kjörinn besti leikstjórinn fyrir myndina Nie Yinniang, eða The Assassin.
Frakkinn Vincent Lindon var valinn besti leikarinn fyrir leik sinn í La Loi du Marché. Þær Rooney Mara og Emmanuelle Bercot skiptu með sér verðlaunum sem besta leikkonan. Mara fyrir hlutverk sitt í Carol í leikstjórn Todd Hayne og Bercot fyrir hlutverk sitt í Mon Roi.
Coen-bræðurnir voru formenn dómnefndar á Cannes-hátíðinni í ár.