Hinn heitelskaði barnabókahöfundur Dr. Seuss hefur ekki átt sjö daganna sæla í kvikmyndaheiminum þar sem Jim Carrey oflék Trölla árið 2000, sjálfan sig í Horton árið 2008 og Mike Myers gerði útaf við alla ást sem tengdist Kettinum með Höttinn árið 2004. Nú virðist hinsvegar teiknimyndaframleiðendurnir hjá Illumination Entertainment hafa fundið út hvernig skal gera Seuss-mynd rétt ef dæma má út frá því sem sést hefur úr nýju teiknimynd þeirra, The Lorax. Það er enginn annar en stórlaxinn Danny DeVito sem fer með titilhlutverk myndarinnar og kynnir nýju stikluna fyrir myndina hér fyrir neðan, en myndin er byggð á samnenfndri bók eftir Dr. Seuss. Bókin var einnig áður gerð að stuttri teiknimynd fyrir sjónvarpsstöðina CBS á áttunda áratugnum.
Eins og sést er myndin mjög litskrúðug og uppfull af sérkennilegum uppákomum og uppfinningum sem eru kenndar við ímyndunarafl. Áferðin á umhverfinu og persónunum minnir á Tangled en persónuhönnunin er augljóslega í stíl við þær sem er að finna í Suess-bókunum. Marga þekkta leikara er að finna í myndinni m.a. Zac Efron, Rob Riggle, ofurkvendið Betty White, stórstjörnuna Taylor Swift og það er Ed Helms sem fer með aðalhlutverk myndarinnar.
Myndin tæklar umhverfismál en bókin var þekkt á sínum tíma fyrir gagnrýnina sem hún hlaut fyrir „ósanngjarna“ ímynd sína gagnvart skógarhöggvi. Myndin virðist þó ekkert spara hvað varðar þetta málefni og virðist hafa hjartað á réttum stað. Nú er spurning um hvort að lokaútgáfan sé jafn góð og stiklurnar benda til en þær lofa bráðfyndnu fjölskyldugríni í óhefluðum og litskræuðugum ævintýraheim.
Lóraxinn er væntanlegur í bíóhús í mars á næsta ári og verðu forvitnilegt að vita hvernig henni mun ganga á móti nornaveiðurunum Hans og Grétu sem kemur út í sömu vikunni.