Leikarinn Johnny Depp hlakkar til að leika úlf í kvikmyndagerðinni af Tony-verðlauna söngleiknum Into the Woods eftir Stephen Sondheim.
„Ég er mjög spenntur yfir því að leika stóra vonda úlfinn,“ sagði Depp við e-online fréttaveituna þegar hann var að kynna nýjustu mynd sína The Lone Ranger.
„Þetta er svo sannarlega draumur sem er að verða að veruleika,“ bætti Depp við, en hann er ekki ókunnugur verkum Sondheim þar sem hann lék aðalhlutverkið í kvikmyndagerð af öðrum söngleik Sondheims, Sweeney Todd.
„Sondheim er frábær, en þegar þú ert ekki frábær söngvari, þá er þetta dálítið flókið efni sem hann skrifar.“
Sondheim var spurður við annað tilefni um það hvort hann efaðist um sönghæfileika Depps fyrir hlutverkið. „Ég hef alltaf frekar valið leikara sem syngja fram yfir söngvara sem leika, og almennt séð hef ég haft þann háttinn á þegar ég ræð fólk í sýningar í New York,“ sagði Sondheim.
„Þeir verða að vera músíkalskir. Þeir verða að geta haldið lagi. Þeir verða að hafa tilfinningu fyrir takti.“
Leikstjóri Into the Woods er Rob Marshall en Meryl Streep mun leika aðalhlutverk á móti Depp, í hlutverki nornarinnar. Jake Gyllenhaal er prins Öskubusku, Chris Pine er prins Garðabrúðu og Emily Blunt leikur eiginkonu bakarans. Anna Kendrick er sögð eiga að leika Öskubusku.
Into the Woods vann þrjú Tony leikhúsverðlaun árið 1988, og er saga þar sem ýmsar frægar ævintýrapersónur koma við sögu.
Myndin verður frumsýnd um jólin 2014.
Depp vann síðast með Marshall í fjórðu Pirates of the Caribbean myndinni.