Bandaríski Hollywoodleikarinn Denzel Washington segir að kvikmyndir sem gerðar eru eftir teiknimyndasögum, séu á sterum, eins og hann orðar það.
Leikarinn segir að myndum eins og Spider-Man og Iron Man hafi tekist að fanga anda þess tíma þegar teiknimyndasögurnar voru upp á sitt besta þökk sé nýrri tækni. „Ég held að teiknimyndasögumyndirnar eins og þær eru í dag séu eins og teiknimyndasögurnar voru sjálfar fyrir 40 árum síðan. Þær gefa manni sömu ævintýratilfinninguna, sömu spennuna.
Félagi minn átti stórt safn af teiknimyndasögum og lifði í þeim heimi. Nú held ég að með nýrri tækni séum við komin með teiknimyndasögur á sterum,“ segir Denzel.
Nýjasta mynd leikarans heitir Unstoppable, en þar leikur hann lestarstarfsmann sem þarf að stöðva lest sem brunar stjórnlaust eftir teinunum. Denzel segir í gamni að hann og leikstjórinn Tony Scott hafi í raun lítið þurft að hafa fyrir þessu, lestin sjái um þetta allt sjálf.
Í samtali við Collider.com segir leikarinn: „Þú ert með þetta lestarskrýmsli sem vinnur alla vinnuna. Það þarf ekkert að hrista myndavélina neitt að ráði.“