Denzel í dúndurformi

Nýjasta mynd Denzel Washington, The Equilizer, sem frumsýnd var í Bandaríkjunum nú um helgina, og hér á Íslandi einnig, gerði sér lítið fyrir og sigldi beint í toppsæti bandaríska aðsóknarlistans eftir fyrsta dag í sýningum í Bandaríkjunum.

Á hæla hennar koma tvær myndir nokkurn veginn jafnar;  toppmynd síðustu helgar, The Maze Runner, og síðan The Boxtrolls.

Í The Equilizer vinna þeir saman á ný Washington og leikstjórinn Antoine Fuqua, sem gerðu síðast saman verðlaunamyndina Training Day.

equalizer-sat-618x400

The Equilizer þénaði 12,6 milljónir Bandaríkjadala á fyrsta sýningardegi sínum, og stefnir myndin í 35 milljónir dala í tekjur yfir helgina alla. Ásamt Washington leikur Chloe Moretz aðalhlutverk, en myndin er byggð á þekktum sjónvarpsþáttum frá níunda áratug síðustu aldar, sem sýndir voru m.a. hér á Íslandi við miklar vinsældir.

The Maze Runner og The Boxtrolls munu líklega bítast um annað sæti bandaríska vinsældarlistans eftir sýningar sunnudagsins, en tekjur myndanna verða líklega í kringum 16,7 milljónir dala eftir helgina alla.

Miðað við tekjurnar sem hafa skilað sér nú þegar í kassann þá er útlit fyrir að gengi The Equilizer verði eitt hið besta á frumsýningarhelgi í sögunni fyrir mynd sem frumsýnd er í september í Bandaríkjunum. Insidious Chapter 2 er vinsælasta september-frumsýnda mynd sögunnar með 40,2 milljónir á frumsýningarhelgi sinni og þar á eftir kemur Sweet Home Alabama með 35,6 milljónir dala.

Ef svo fer sem horfir hjá The Equilizer þá munu framleiðendur sigla beint í framhaldsmynd, en myndin kostaði 55 milljónir dala. Handritshöfundurinn Richard Wenk er nú þegar byrjaður að vinna að framhaldi samkvæmt The Wrap vefsíðunni. Ef af framhaldsmynd verður þá yrði það fyrsta framhaldsmynd Washington, sem fékk Óskarsverðlaunin árið 2001 fyrir leik sinn í Training Day.