Deathlok enn í gangi

Eftir að X-Men sló rækilega í gegn, virðist Hollywood vera að ganga af göflunum í því að reyna að gera ofurhetjumyndir. Þegar eru í undirbúningi Iron Man, Fantastic Four, Spider-Man, Hulk, Luke Cage, X-Men 2 og eflaust einhver fleiri, þó öll verði kannski ekki að veruleika. Eitt verkefni virðist samt vera á góðri leið með að komast á hvíta tjaldið, og er það sagan um Deathlok. Er þetta u.þ.b. 15 ára gömul myndasaga, um mann sem stjórnvöld eru smám saman að breyta í lifandi tölvu, án hans vitundar. Paramount kvikmyndaverið á réttinn, og hefur fengið til liðs við sig Stu Zickerman og Raven Metzner til að skrifa fyrir sig handritið, en myndin yrði framleidd af Avi Arad og Brian Witten.