Leikhópurinn fyrir væntanlega kvikmynd um ærslabelgina Tomma og Jenna, eða Tom & Jerry, sem voru fastagestir í samnefndum teiknimyndum í íslensku sjónvarpi um árabil, er nú að skríða betur og betur saman.
Nýjasta viðbótin í hópinn er enginn annar en Hangover leikarinn Ken Jeong, og Deadpool 2 leikarinn Rob Delaney. Jeong er auk þess að vera þekktur fyrir Hangover myndirnar, þekktur uppistandari, og fyrir kvikmyndir eins og Cracy Rich Asians og sjónvarpsþættina Community. Leikarinn er einnig menntaður læknir. Persónan sem hann leikur í Tomma og Jenna heitir Jackie.
Rob Delaney, er eins og fyrr sagði, líklega þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Peter í Deadpool 2, en við getum líka barið hann augum á hvíta tjaldinu í Fast & Furious Presents: Hobbs & Shaw, þar sem hann fer með hlutverk DuBros.
Aðrir leikarar sem staðfestir hafa verið í Tomma og Jenna eru Jordan Bolger, í hlutverki Cameron, og Pallavi Sharda, sem Preeda.
Enn aðrir sem verða meðal leikenda í Warner Bros. kvikmyndinni eru Chloe Grace Moretz ( Suspiria), sem leikur eitt aðalhlutverkanna, Kayla. Colin Jost úr Saturday Night Live gamanþáttunum og Michael Pena ( Ant-Man) eru einnig með. Tim Story leikstýrir.
Í myndinni verða ævintýri kattarins Tomma og músarinnar Jenna, færð inn í raunheima, þar sem teiknimynda- og tölvutækni, verður blandað saman við leik alvöru leikara. Sagan mun segja frá því þegar Tommi og Jenni eru reknir að heiman, og flytja inn á fínt hótel í New York. Hinn áflogagjarni bragðarefur Kayla, fær vinnu þar og fær þann starfa hjá illgjörnum yfirmanni sínum Terrance, sem Pena leikur, að reka Jenna út áður en fínt og flott brúðkaup verður haldið þar. Hennar lausn er að ráða undirverktaka í starfið, engan annan en Tomma, en það á eftir að ganga erfiðlega, eins og flestir þeir sem þekkja teiknimyndirnar ættu að geta gert sér í hugarlund.
Tom and Jerry er enn ein teiknimyndin í röð margra þar sem teiknimyndafígúrum er blandað saman við leik alvöru leikara. Aðrar myndir af því taginu eru til dæmis Scooby-Doo og framhaldið á Scooby-Doo.
Þetta er þó ekki ávísun á vinsældir því myndir eins og Garfield: The Movie, mynd af sama tagi um köttinn Gretti, gekk ekki nógu vel, og aðalleikarinn Bill Murray sagði á dánarbeðinu í Zombieland kvikmyndinni, hana vera mestu eftirsjá sína í lífinu.
Frumsýning Tomma og Jenna verður 16. apríl 2021, samkvæmt frétt The Hollywood Reporter.