Deadpool leikkonan Morena Baccarin hefur skrifað undir samning um að leika á móti King Arthur: Legend of the Sword leikaranum Charlie Hunnam, í spennumyndinni Waldo. Frá þessu segir á vefsíðunni ComingSoon.net.
Hunnam mun fara með titilhlutverkið, Charlie Waldo. Honum er lýst sem fyrrum rannsóknarlögregluþjóni í lögreglunni í Los Angeles, LAPD, sem er rekinn úr starfi eftir að hafa misstigið sig í morðrannsókn. Hann býr nú einn á afviknum stað úti í skógi.
Myndin byggir á skáldsögu Howard Michael Gould frá árinu 2018, Last Looks, þar sem Waldo er lýst sem mínimalista, en á kápu bókarinnar segir að hann sé “sjúklega staðfastur í að eiga ekki meira en 100 hluti.”
Sjálfskipuð einangrun aðalpersónunnar endar þegar eiginkona frægs sjónvarpsleikara er myrt á þeirra eigin heimili.
Kærasta Waldo, Lorena, sem leikin er af Eiza González, nær að draga hann úr felum, til að rannsaka morðið.
Enn hefur ekki verið tilkynnt um hvaða hlutverk Baccarin mun leika.
Aðrir leikarar eru m.a. Mel Gibson og Dominic Monaghan. Gould sjálfur mun skrifa handritið. Tim Kirby leikstýrir. Waldo er væntanleg í bíó á næsta ári, 2020.