De Niro í nýrri sannsögulegri boxmynd

Svo virðist sem Robert de Niro fái seint nóg af boxmyndum. Hann vann jú til einu Óskarsverðlauna sinna til þessa sem besti leikari í aðalhlutverki, fyrir myndina Raging Bull þar sem hann lék Jake LaMotta.

Tökum á boxmyndinni Grudge Match er nýlokið en þar lék hann á móti öðrum vel þekktum „boxmyndamanni“, Sylvester Stallone. 

Samkvæmt vefsíðunni Deadline er de Niro nú búinn að taka að sér hlutverk í rétt einni boxmyndinni en hér er um að ræða myndina Hands of Stone þar sem De Niro leikur á móti Edgar Ramirez.

Leikstjóri verður Jonathan Jakubowicz, en myndin er byggð á ævi hins þekkta hnefaleikamanns Roberto Duran.

Ramirez mun leika Duran en De Niro mun leika Ray Arcel, þjálfara Duran. Myndin mun fjalla um það hvernig hvor mannanna um sig breytti lífi hins.

Áætlað er að tökur myndarinnar hefjist í september nk. í heimalandi Duran, Panama.

 

Box goðsögn

Fyrir þá sem ekki þekkja Duran þá er hann talinn einn mesti hnefaleikamaður allra tíma og barðist á sama tíma og menn eins og Sugar Ray Leonard og Marvin Hagler.

Á ferlinum barðist hann 119 sinnum, vann 103 bardaga og þar af 70 með rothöggi.

Myndin mun að stórum hluta leggja áherslu á bardaga Duran og Leonard, einkum hinn sögufræga bardaga árið 1980 þegar Duran hætti í áttundu lotu, og kallaði til dómaranna „No mas“ ( ekki meira ).

Ekki liggur fyrir hver muni leika Sugar Ray Leonard.

Jakubowicz segir um þennan bardaga að hann sé ein mesta ráðgáta í sögu hnefaleikanna. Bíómyndin muni svara þessari gátu, „með hæfileikaríkustu leikurum sem nokkur leikstjóri getur látið sig dreyma um.“

Grudge Match verður frumsýnd næsta haust, en De Niro mun næst sjást á hvíta tjaldinu í rómantísku gamanmyndinni The Big Wedding, sem verður frumsýnd síðar í þessum mánuði í Bandaríkjunum.

Ramirez sást síðast í mynd Kathryn Bigelow, Zero Dark Thirty, og er nýbúinn að vinna við myndina Liberatador eftir Alberto Arvelo.