Kvikmyndaleikkonan Rosario Dawson trúir nú á dáleiðslu, eftir að hafa prófað að láta dáleiða sig fyrir nýjustu mynd sína Trance, sem leikstýrt er af Danny Boyle.
Samkvæmt frétt í The Independent þá prófuðu aðrir leikarar í myndinni einnig dáleiðslu, þeir Vincent Cassell og James McAvoy, en án árangurs, að því er blaðið segir.
Leikstjórinn, Boyle sjálfur, sagði sömuleiðis að það hefði ekki virkað fyrir sig af því að „leikstjórar vilja alltaf stjórna og ég held að þeir slaki aldrei nóg á til að vera heppilegir í dáleiðslumeðferð“.
Dawson hinsvegar, sem leikur dáleiðslumeistara í myndinni, segir: „Ég held að þetta virki mjög vel. Ég var ekki að gera þetta til að hætta reykja eða neitt svoleiðis.
„En ég man að ég fór inn og gaf henni hugmynd um hvað ég vildi að myndi virka í tímanum. Og ég lagðist niður og hún breiddi teppi yfir mig af því að þegar þú dáleiðist þá er það eins og að vera á mörkum svefns og vöku, þannig að líkamanum finnst eins og hann sé að fara að sofna. Þannig að ég kólnaði upp og svo slappaði ég af við að hlusta á röddina í henni og það var mjög hugreystandi. Það komu svona litlir krampar í líkamann á mér eins og þegar maður er að sofna.
„Svo vaknaði ég upp og hún sagði „Ég veit að þú sagðist vilja vinna í þessu, en þú brást vel við þessu, og þessu og þessu.“ Og ég sagði „hvernig geturðu vitað þetta allt?!“ Og hún sagði að fóturinn á mér hafi sparkað út í loftið þegar hún spurði mig ákveðinna spurninga.
„Þannig að það er mjög forvitnilegt í raun að undirmeðvitundin sýni sig, og ef þú ert þjálfaður í að rýna í viðbrögðin, þá getur það sagt mikið um fólk. Þetta er næstum eins og póker. Við höldum að við séum að fela hluti, en erum ekki að gera það.
„Þannig að það var frábært fyrir mig að upplifa þetta, því að í myndinni er fullyrt að dáleiðsla virki mjög sterkt.
„Það var mjög mikilvægt fyrir mig að trúa því, og að ganga í gegnum þetta þannig að ég öðlaðist mikla virðingu fyrir faginu, verð ég að segja.“
McAvoy leikur í myndinni uppboðshaldara í listhúsi sem tengist glæpagengi, sem persóna Cassel stýrir, sem fara síðan að vinna með dáleiðslumeistara sem Dawson leikur, til að reyna að finna málverk sem er týnt.
Sögur hermdu að Dawson og Boyle væru orðin kærustupar eftir að hafa unnið saman að myndinni. Hún var gestur hans á opnunarhátíð Ólympíuleikanna í London í fyrrasumar, en Boyle leikstýrði opnunarhátíðinni.
Tilkynnt var um það fyrr í þessum mánuði að Boyle og Dawson væru ekki lengur par.