Aðdáendur tölvuleikjaseríunnar Uncharted geta andað léttar í augnablik, en leikstjórinn David O. Russell hefur hætt við að gera mynd byggða á leikjunum. Fyrir nokkru síðan greindum við frá því að leikstjórinn, ásamt Mark Wahlberg, ætlaði sér að gera kvikmynd eftir þessum gífurlega vinsælu tölvuleikjum. Eitthvað virtust þeir ósáttir með efnið því þeir breyttu sögunni þannig að henni svipaði sáralítið til leikjanna.
Deadline segir frá því að þótt Russell hafi verið spenntur fyrir myndinni hafi hann of mikið á sinni könnu og eitthvað hafi þurft að fjúka. Ekki er vitað hvort myndin, sem leikarar á borð við Robert De Niro og Joe Pesci voru orðaðir við, muni finna annan leikstjóra eða henni frestað.