Dauðvona maður fékk að sjá Star Wars

Dauðvona Bandaríkjamaður, hinn 32 ára Daniel Fleetwood, fékk ósk sína uppfyllta þegar hann fékk að sjá Star Wars: The Force Awakens áður en myndin verður frumsýnd. Star Wars: The Force AwakensPh: Film Frame©Lucasfilm 2015

Fleetwood er mikill aðdáandi Star Wars og þráði ekkert heitara en að sjá myndina. Eiginkona hans stofnaði fjáröflunarsíðu til að geta borgað sjúkrareikningana hans, auk þess sem hún setti í gang herferðina Force For Daniel á samfélagsmiðlum í von um að hann gæti séð myndina áður en hann deyr.

„Til allra ykkar sem hafa stutt við bakið á okkur: Draumur Daniel varð að veruleika!! Hin yndislegu Disney, Bad Robort og Lucasfilm sáu til þess. Daniel er nýbúinn að horfa á ókláraða útgáfu af Star Wars: The Force Awakens!!!,“ skrifaði eiginkonan á Facebook.

„Við viljum þakka hinum ótrúlega hæfileikaríka JJ Abrams fyrir að hringja í okkur í gær og segja okkur að Daniel myndi fá ósk sína uppfyllta! Ég vil líka þakka öllum þeim sem veittu aðstoð til að þetta gæti gerst!!

Hún bætti við: „Megi mátturinn vera með ykkur öllum.“