Dauði eftir sjö daga – Fyrsta stikla úr Rings!

Um áratugur er síðan The Ring serían var á hvíta tjaldinu síðast, en nú, nánar tiltekið á Hrekkjavökunni í október nk., er komið að nýjum kafla í sögunni með myndinni Rings.  

Endurgerðin á upprunalegu japönsku myndinni, sem Gore Verbinski gerði árið 2002, sló í gegn, en framhald þeirrar myndar gerði svo leikstjóri upprunalegu myndarinnar, Hideo Nakata. Sá sem stýrir nýju myndinni hinsvegar er F. Javier Gutierrez (Before the Fall).

rings mynd

Stiklan er talsvert óhugnanleg, enda er talið niður þar til aðalpersónan á að láta lífið, og hver hrollvekjandi atburðurinn hendir annan þessa daga, blæðandi sjónvörp, hár dregið úr koki, og fleira og fleira.

Með aðalhlutverk fara Matilda Lutz, Alex Roe, Johnny Galecki, Aimee Teegarden, Bonnie Morgan og Vincent D’Onofrio.

Söguþráðurinn er þessi í stuttu máli: Ung kona fer að fá áhyggur af kærasta sínum þegar hann fer að kanna dimma neðanjarðarmenningu sem tengist dularfullu myndbandi, en sagt er að sá sem horfi á það deyji sjö dögum eftir áhorfið. Hún fórnar sjálfri sér fyrir kærastann, en gerir um leið hrollvekjandi uppgötvun: það er „kvikmynd innan kvikmyndar“ sem enginn var búinn að uppgötva áður.

Myndin verður frumsýnd hér á landi 11. nóvember nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan:

rings poster