Dáleiddur þjófur – Ný stikla

Við birtum nýjar myndir úr nýjustu kvikmynd breska leikstjórans Danny Boyle, Trance,  fyrir skemmstu, en nú er stiklan komin út og hægt er að horfa á hana hér að neðan.

Myndin fjallar um uppboðshaldara í listhúsi sem skipuleggur rán á meistaraverki eftir spænska listmálarann Goya, ásamt illvígum glæpaforingja. Uppboðshaldarinn svíkur glæpaforingjann í ráninu miðju, og þorparinn bregst við með því að slá hann í höfuðið. Eftir höfuðhöggið ber Simon fyrir sig minnisleysi. Glæpagengið þarf nú að fá aðstoð dáleiðslumeistara til að endurheimta upplýsingar frá Simon um hvar myndin sem þau stálu, er niður komin.
Uppboðshaldarinn Simon, er leikinn af James McAvoy, Rosario Dawson leikur sálfræðinginn og dáleiðslumeistarann, og Vincent Cassel leikur glæpaforingjann.

Eftir því sem þau grafa dýpra inn í hugarheim Simons þá fara mörkin á milli raunveruleikans og dáleiðslunnar að verða óljósari og spennan vex …

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Myndin verður frumsýnd í Bretlandi 27. mars nk.