RIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, er nýlokið, en áhugamenn þurfa ekki að örvænta, alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Stokkhólmi, Stockholm Film Fest hefst þann 7. nóvember nk. og stendur til 18. sama mánaðar.
Stockholm Film Fest mun í ár veita í fyrsta sinn ný verðlaun, The Stockholm Achievement Award, og mun Willem Dafoe verða fyrsti verðlaunahafinn. Einnig verða verðlaunaðir sænski leikstjórinn Jan Troell, sem fær verðlaun fyrir ævistarfið, og franski leikstjórinn Jacques Audiard, sem fær Visionary Award.
Allir þessir þrír heiðursmenn munu halda master class á hátíðinni.
Konur þriðjungur
Í fréttatilkynningu kemur fram að þriðjungur af myndum á hátíðinni sé leikstýrt af konum. Einnig segir þar að á meðal mynda sem keppa um aðalverðlaun hátíðarinnar, Brons hestinn, verði Sister eftir Ursula Meier, Tabu eftir Miguel gomes og Killing Them Softly eftir Andrew Dominik.
Lokamynd hátíðarinnar verður The Master eftir Paul Thomas Anderson.
Meiri upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar er að finna hér.