Trafalgar Square í London var lokað tímabundið í dag, sunnudag, svo að kvikmyndaleikarinn Tom Cruise gæti sigið niður úr þyrlu og tekið upp atriði fyrir myndina sína All You Need is Kill.
Eins og við höfum sagt frá áður hér á síðunni þá fjallar All You Need Is Kill um hermann sem deyr aftur og aftur og aftur, en lifnar endalaust við til að taka þátt í sama bardaganum, ekki ósvipað Groundhog Day!
Torgið var lokað eins og fyrr sagði, og myndavélar tóku myndir af Cruise í hermannagrænum búningi, en auk þess voru nokkrir skriðdrekar staddir á svæðinu sem hluti af sviðsmyndinni.
Aðrir leikarar í myndinni eru Emily Blunt og Bill Paxton. Myndin er byggð á sögu Japanans Hiroshi Sakurazaka og verður frumsýnd 14. mars 2014.
Myndin gerist í nálægri framtíð og geimverur hafa komið niður á Jörðina og gert árás og milljónir manna hafa dáið. Engin her er tiltækur á Jörðinni sem ræður við skrýmslin, og nú er komið að ögurstundu í baráttunni við innrásarherinn. Cruise leikur hershöfðingja sem aldrei hefur lent í stríði, og er umsvifalaust hent í djúpu laugina í bardaga, og er drepinn eftir nokkrar mínútur. En það skrýtna gerist að hann vaknar aftur og aftur í það helvíti sem þetta stríð er, á sama deginum í sama bardaganum, og þarf að deyja, aftur og aftur, og aftur. Það góða við það er að hann verður alltaf betri og betri í hvert sinn sem hann vaknar aftur til lífsins, og þar með betur hæfur til að takast á við geimverurnar.