Comic-Con – Dagbók: Preview Night

Comic-Con hófst með látum í kvöld þar sem svokallað „Preview Night“ var haldið fyrir hörðustu aðdáendurna, sem gátu fengið fyrstu rúntana um kynningarbása myndasögufyrirtækja, leikjaframleiðenda og kvikmyndastúdíóanna, keypt besta dótið í sölubásunum á undan öllum öðrum og fengið fyrstu eiginhandaráritarnirnar hjá hetjunum sínum.

Kvikmyndasýningarnar voru ekki í forgrunni í kvöld, þar sem þær þrjár myndir sem voru sýndar á þessu Forsýningarkvöldi voru Red Cliff, Moon og Daybreakers, en allar eru þær löngu komnar út í Bandaríkjunum og reyndar víðast hvar um heiminn. Hasarinn var hins vegar á aðalkynningargólfinu í hinni risastóru Ráðstefnuhöll í San Diego, þar sem bæði var hægt að kaupa og skoða það nýjasta sem er að gerast í myndasögu-, tölvuleikja- og kvikmyndaheiminum.

Á göngu um myndasögubásana komumst við fyrir slysni að afar spennandi upplýsingum um framtíðarverkefni hjá Guillermo del Toro, en við segjum betur frá því í sérfrétt á vefnum.

Þetta eru meira en bara hasarfígúrur, styttur, trailerar og ókeypis plaköt. Fox var til dæmis með risabás þar sem verið var að kynna Blu-ray útgáfu af Alien-myndunum fjórum, en þar var löng röð í tæki sem var eins og djúpsvefnsklefarnir úr Nostromo-skipinu að utan, en þegar maður lagðist inn í það tók við mikil myndasýning og hasar. Hægt var að setjast í eftirlíkingu af settinu úr myndinni Thor og láta taka mynd af sér, auk þess sem framleiðendur Green Hornet, Red, Drive Angry og Tron buðu upp á alls konar upplifun fyrir gesti og gangandi.

Haldin var sérstök hátíðarfrumsýning á fyrsta þættinum úr væntanlegri sjónvarpsseríu frá WB, en þeir bera nafnið Nikita og eru byggðir á samnefndri mynd frá Luc Besson. Maggie Q leikur aðalhlutverkið, en miðað við þennan fyrsta þátt, sem innihélt ágætan hasar og flotta flækju í lok hans en afar vafasöm samtöl og misjafnan leik, verður áhugavert að sjá hvort hægt sé að teygja hugmyndina út í heila sjónvarpsseríu.

Upplifunin af fyrsta kvöldinu var ansi stór og mikil við það eitt að ganga í gegnum kynningarsalinn og sjá fólk dansandi í Wii-tölvuleikjum í einum bás og með þrívíddargleraugu í öðrum tölvuleik í næsta bás, raðir fyrir utan bása stóru fyrirtækjanna þar sem vongóðir biðu eftir plakötum, leikföngum og jafnvel eiginhandaráritunum, og þúsundir myndasöguaðdáenda rótandi eftir fágætum fjársjóðum og nýjustu og heitustu myndasögunum.

Á morgun byrja svo blaðamannafundir og sérkynningar á myndum, þáttum og sögum, þar sem við munum meðal annars kynna okkur Tron: Legacy, Scott Pilgrim og margt fleira, þar sem stjörnur myndanna munu mæta og sýna okkur efni sem engir aðrir hafa séð.