Bandaríski leikarinn (og Íslandsvinurinn?) Chris Pine hefur verið ráðinn í hlutverk „Dýrlingsins“ Simon Templar í glænýrri endurræsingu. Kvikmyndin verður framleidd af Paramount og mun leikarinn og leikstjórinn Dexter Fletcher sjá um leikstjórnina, en hann vakti mikla lukku í fyrra með ævisögunni um Elton John, Rocketman.
Pine hefur átt góð tengsl við Paramount undanfarin ár, meðal annars með hlutverkum sínum í endurræsingunum á Star Trek (2009) og Jack Ryan: Shadow Recruit. Ekki er enn vitað hvenær framleiðsla myndinarinnar muni hefjast en – líkt og með ýmist annað – veltur það á framvindu kórónuveirunnar.
Segja má að erfiðlega hefur gengið að endurvekja Simon Templar frá því að Sir Roger Moore lék hann í sjö þáttaröðum frá árunum 1962-1969. Einungis ein sería var framleidd af „Return of the Saint“ með Ian Ogilvy og árið 1997 lék Val Kilmer titilhlutverkið í stórmyndinni „The Saint“ sem gekk illa í miðasölu og fékk slæma útreið frá gagnrýnendum.
Árið 2013 var gerð tilraun til að búa til nýja þáttaseríu um Simon Templar og búinn var til „Pilot“, eða prufuþáttur, sem hlaut ekki náð fyrir augum valinna áhorfenda og ekkert varð úr frekari ævintýrum hans. Leikarinn Adam Rayner lék titilhlutverkið og í aukahlutverkum voru m.a. Eliza Duzhku („Buffy the Vampire Slayer“), James Remar („Dexter“), Thomas Kretschmann („The Pianist“) og gamli dýrlingurinn Ian Ogilvy sem einmitt lék Simon Templar í þáttaseríunni „Return of the Saint“ sem gekk í aðeins eitt ár frá 1978-1979. Þessi svokallaði pilot-þáttur sem nefndur var að ofan var síðar meir gefinn út sem stök sjónvarpsmynd.