Fyrsta landið til frumsýna nýju Hungurleikamyndina, The Hunger Games: Catching Fire, er Brasilía, og óhætt er að segja að myndin hafi slegið í gegn þar í landi. Á fyrsta degi þénaði myndin 2,4 milljónir Bandaríkjadala, en myndin var frumsýnd á 962 bíótjöldum.
Það er Jennifer Lawrence sem fer með hlutverk aðalhetjunnar, Katniss Everdeen.
Tekjur af sýningu myndarinnar á fyrsta degi í Brasilíu eru þrefaldar á við fyrsta sýningardag fyrri myndarinnar í landinu á síðasta ári.
Fyrri myndin þénaði 409 milljónir dala í Bandaríkjunum, en samanlegt 691 milljón dala á alheimsvísu. Talið er að framhaldsmyndin muni verða enn tekjuhærri en forverinn á alheimsvísu, þar sem fólk þekkir bækurnar sem myndirnar eru byggðar á og myndirnar sjálfar, betur nú en þegar fyrri myndin var frumsýnd.
Markaðssérfræðingurinn Alan Gould hjá fyrirtækinu Everscore, spáir því að Catching Fire muni þéna 950 milljónir dala á alheimsvísu.
Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum og í 65 öðrum löndum, þar á meðal hér á Íslandi, næstkomandi föstudag, þann 22. nóvember.