Captain Marvel verður sterkasta ofurhetjan

Forstjóri Marvel Studios kvikmyndafyrirtækisins, Kevin Feige, segir að kven-ofurhetjan Captain Marvel verði sterkasta Marvel ofurhetjan sem komið hefur á hvíta tjaldið hingað til. Hulk hefur almennt verið talin sterkasta Marvel ofurhetjan, en Captain Marvel, með sína stjarnfræðilegu krafta, mun slá honum við.

captain-marvel-brie-lars

Room Óskarsverðlaunaleikkonan Brie Larson mun leika Marvel í mynd sem kemur í bíó 8. mars 2019.

Í nýlegu samtali við Vulture sagði Feige að það væri mikilvægt að átta sig á að hetjurnar væru ekki gallalausar: „Allar Marvel hetjurnar eru með galla, og allar eru með djúpa mannlega eiginleika.“

„Captain Marvel er sterkasta persónan sem við höfum gert kvikmynd um. Kraftar hennar eru út úr kortinu.“

Í Marvel teiknimyndasögunum eru til nokkrar mismunandi ofurhetjur sem heitið hafa Captain Marvel, en þessi tiltekna Captain Marvel er Danvers, fyrrum herflugmaður, sem verður fyrir því að erfðaefni hennar blandast við geimverukynið Kree. Afleiðingar þess verða þær að hún fær ofurmannlega krafta og úthald, og getur flogið, auk þess sem hún getur skotið orku úr höndunum.“

Enginn leikstjóri hefur enn verið ráðinn fyrir myndina, en Feige segist í viðtalinu, vonast til að ráða leikstjóra fyrir lok þessa árs. „Við höfum hitt frábæra leikstjóra, en hvernig þeir vinna, eins og var með Doctor Strange og flestar myndir okkar, er að við höfum … ég vil ekki segja „leiðarkerfi“, en ákveðna mynd af því hvernig kvikmyndin er, og síðan hittum við kvikmyndagerðarmennina og ræðum það við þá og þeir koma með sínar hugmyndir til baka.“