Ofurhetjumyndin Captin America: The First Avenger, sem kvikmyndir.is forsýnir í kvöld kl. 22.15 í Laugarásbíói, fór beint á topp aðsóknarlista bíóhúsa í Bandaríkjunum og Kanada um helgina, með 65,8 milljónir Bandaríkjadala í aðgangseyri, sem er meiri aðsókn en framleiðendur höfðu búist við. Myndin hefur fengið jákvæða gagnrýni og retro-útlit myndarinnar virðist höfða vel til kvikmyndagesta. Harry Potter and the Deathly Hallows 2 þurfti að gefa toppsætið eftir, en sú mynd setti met í miðasölunni þegar hún var frumsýnd. Aðsókn að Potter minnkaði um 72% á milli vikna. Tekjur myndarinnar eftir helgina eru komnar upp í 834,6 milljónir Bandaríkjadala á heimsvísu, eða 96,6 milljarða íslenskra króna.
Harry Potter þénaði 48,1 milljón dala á sinni annarri viku á lista, en utan Bandaríkjanna þénaði myndin 121,3 milljónir dala.
Rómantíska gamanmyndin Friends with Benefits, með Justin Timberlake og Mila Kunis, fór beint í 3. sætið með 18,5 milljónir dala í tekjur, sem er flott byrjun fyrir mynd sem kostaði 34 milljónir í framleiðslu, að því er Sony Pictures stúdíóið segir.
Í frétt frá Reuters segir að 64% þeirra sem komu að sjá Captain America hafi verið karlkyns. Myndin gerist á fimmta áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum og fjallar um væskilslegan mann sem reynir að komast í Bandaríska herinn en er alltaf hafnað, þar til hann tekur þátt í leynilegri áætlun hersins um að búa til ofurhermann.
Captain America er síðasta ofurhetjan til að koma á hvíta tjaldið áður en myndin The Avengers verður frumsýnd á næsta ári, en þar sameina krafta sína margar kunnar ofurhetjur.
Aðrar myndir á lista eru Transformers: The Dark of the Moon, sem lenti í fjórða sæti með 12 milljónir dala í tekjur og gamanmyndin Horrible Bosses lenti í fimmta sæti með 11,7 milljónir dala í tekjur.