Leikstjórinn James Cameron settist niður með Martin Scorsese til að tala um nýjustu mynd þess síðarnefnda, Hugo. Myndin er fyrsta þrívíddarmynd Scorsese og hefur fengið góðar viðtökur þar sem hún hefur sést hingað til, en Cameron stjórnaði Q&A (spurt og svarað) forsýningu á myndinni á dögunum. Myndband með þeim köppum er einnig komið á netið, og þó að þetta sé greinilega kynningarklippa með atriðum úr myndinni klipptum inní, er gaman að heyra hvað þeir hafa að segja. Cameron segir m.a. „Myndin þín er um töfra kvikmyndanna… og myndin er töfrum líkust, hún er eins og 16 sílendra Búgatti sem keyrir á þeim öllum, og einn af þessum 16 sílendrum er þrívíddin. Þetta er án vafa besta þrívíddarmyndartaka sem ég hef séð.“ Scorsese leggur til: „Þetta er svo spennandi tækifæri fyrir miðilinn að stækka. Ímyndið ykkur Citizen Kane í þrívídd!“. Hann bætir við: „Ég er ekki að leggja það til.“
Myndin er byggð á bókinni The Invention of Hugo Cabret, og segir frá munaðarlausum dreng sem býr á lestarstöð í París, og kemst í kynni við gamlan mann sem vinnur í leikfangaverslun þar. Sagan byggir að hluta til á sannri sögu Georges Méliès, sem var einn mesti frumkvöðull kvikmyndalistarinnar þegar hún var að taka sín fyrstu skref. Í helstu hlutverkum eru Asa Butterfield, Chloë Grace Moretz, Ben Kingsley, Sasha Baron Cohen, Jude Law, Michael Stuhlbarg og Christopher Lee. Myndin er að koma út á næstu vikum í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að hún væri fullkomin jólamynd (nokkuð sem vantar í ár) fáum við ekki að sjá hana fyrr en 13. apríl skv. núverandi plani. Hér er myndbandið: