Fyrir nokkrum dögum sögðum við frá því hér á kvikmyndir.is að stórleikarinn Mel Gibson myndi verða með í Expendables 3 myndinni. Orðrómur hefur verið uppi um að hinir og þessir leikarar muni leika í myndinni, og meðal annars hefur talsvert verið rætt hvort að annar stórmeistari, Nicolas Cage, yrði mögulega með í myndinni. Cage er ekki óvanur spennumyndum, og nægir að nefna The Rock, Con Air og Face / Off í því samhengi.
Cage er nú á kynningartúr fyrir nýjustu mynd sína, spennutryllinn The Frozen Ground, sem byggð er á sannsögulegum atburðum, lífi raðmorðingjans Robert Hansen frá Alaska.
Vefsíðan Denofgeek náði stuttu samtali við Cage á þessum kynningartúr og spurði hann þar um Expendables 3 orðróminn þráláta:
„Ég hef ekki átt neinar formlegar viðræður um [ Expendables 3 ]. Ég er ekki í Kick-Ass 2 og ég held að ég sé ekki í Expendables 3. Og ég kann vel við þessa stráka [ Sylvester Stallone, o.s.frv.], en ég myndi segja að það sé mjög ólíklegt að ég verði í þeirri mynd.“
The Expendables 3 verður frumsýnd í Bandaríkjunum 15. ágúst 2014.