Bruno Mars og Andy Garcia fara til Rio

Leikarinn Andy Garcia, tónlistarmaðurinn Bruno Mars og Broadway stjarnan Kristin Chenoweth eru fyrstu nýju leikararnir sem ráðnir hafa verið til að tala í teiknimyndinni Rio 2, sem er framhald myndarinnar Rio.

Sagt var frá ráðningunum á heimasíðu myndarinnar á Facebook, en þar er sagt frá því einnig að allt leikaralið fyrri myndarinnar snúi aftur, en þar er átt við leikarana Jesse Eisenberg, Anne Hathaway og líklega George Lopez, Leslie Mann og Jamie Foxx.

Á Facebook síðunni er einnig sagt að myndin verði frumsýnd árið 2014. Á imdb.com kvikmyndavefnum er frumsýning sögð verða 14. apríl 2014.

Leikstjóri verður sá sami og leikstýrði fyrri myndinni, Carlos Saldanha, en hann hefur látið hafa eftir sér að heimsmeistaramótið í fótbolta árið 2014 í Brasilíu komi við sögu í myndinni.

Það er ekkert skrýtið að ákveðið var að gera framhald af Rio. Í fyrsta lagi er það ekki óalgengt með teiknimyndir, í öðru lagi er það heldur ekki skrýtið þegar myndir hafa fengið tilnefningar til Óskarsverðlauna, hvað þá góðar viðtökur gagnrýnenda og góða aðsókn, en Rio þénaði 484 milljónir Bandaríkjadala um heim allan.

 

Stikk: