Þrúgandi fjölskyldustemmning – Nýtt plakat úr Málmhaus

Nýtt plakat er komið fyrir íslensku myndina Málmhaus, eða Metalhead eins og hún heitir á ensku, eftir Ragnar Bragason. Plakatið var frumsýnt á Facebook síðu kvikmyndarinnar fyrr í dag, en þar kemur fram að hönnuður plakatsins sé Ómar Hauksson og ljósmyndina á plakatinu hafi tekið Baldur Kristjánsson.

Sjáðu plakatið hér fyrir neðan:

plakat

 

Stemmningin á plakatinu má lýsa sem þrúgandi og mætti ætla að foreldrar „málmhaussins“, sem leikinn er af Þorbjörgu Helgu Þorgilsdóttur, séu ekki á eitt sáttir með áhugamál dótturinnar! Foreldrarnir eru leiknir af Ingvari E. Sigurðssyni og Halldóru Geirharðsdóttur. 

Söguþráður myndarinnar er eftirfarandi: Árið 1970, á sama tíma og Black Sabbath taka upp sína fyrstu plötu, fæðist Hera Karlsdóttir á fjósgólfi á Svarthamri, litlu kúabúi úti á landi. Í æsku er Hera uppátækjasöm og lífið í sveitinni áhyggjulaust þangað til hræðilegur harmleikur dynur á fjölskyldunni. Eldri bróðir hennar deyr af slysförum og kennir Hera sjálfri sér um dauða hans. Í sorginni finnur hún huggun í myrkri tónlistarstefnu og elur með sér draum um að verða þungarokkstjarna. Árin líða undir svörtum hamrinum sem gnæfir yfir bænum. Hera æfir sig út í eitt á gítarinn, stofnar hljómsveit og er saga hennar samofin sögu þungarokksins. Hera er uppreisnagjarn, óþreyjufullur og miskilinn vandræðaunglingur á þrítugsaldri sem dreymir um hinn stóra heim og er sífellt á leiðinni í burtu en er föst á æskuslóðunum. Hún kemur sér endalaust upp á kannt við umhverfi sitt og sveitunga, foreldrum sínum til mikillar armæðu sem skilja ekki hvað gengur að henni. Æskuvinur hennar Knútur – sem snýr aftur í sveitina eftir dvöl í bændaskóla og ætlar að taka við búi af foreldrum sínum – hefur verið astfanginn af henni alla sína ævi. Honum dreymir um að þau verði hjón og fari að búa en Hera hefur önnur áform og þegar nýr prestur flytur í sveitina fara örlagahjólin að snúast. Hera þarf að kljást við að fullorðnast, finna eigin rödd og komast að þvi að maður getur ekki flúið sjálfan sig endalaust

metalhead

Myndin verður frumsýnd á Íslandi 11. október nk. en verður heimsfrumsýnd á TIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada nú í september.