Adrien Brody í hlutverki sínu í Giallo
Óskarsverðlaunaleikarinn Adrien Brody, sem leikið hefur í myndum eins og The Village, Predators og The Pianist, sem hann fékk Óskarsverðlaunin fyrir, stendur nú í málaferlum við framleiðendur kvikmyndarinnar Giallo og vill að lögbann verði sett á útgáfu myndarinnar á DVD.
Giallo er ítölsk hrollvekja sem leikstýrt er af Dario Argento, sem hefur áður leikstýrt Suspiria meðal annars.
Í Giallo, sem fékk aldrei dreifingu í kvikmyndahús í Bandaríkjunum, leikur Brody rannsóknarlögreglumann sem hjálpar konu að finna systur sína, sem var rænt af fjöldamorðingja.
Brody sagði í ákærunni sem lögð var fram í Kaliforníu í síðustu viku, að samkvæmt samningum hans við framleiðandann hafi hann átt að fá greitt hvort sem myndin yrði gerð eða ekki. En eftir nokkrar vikur í framleiðslu, sagði Brody að framleiðendur hefðu ekki greitt honum umsamda 640 þúsund Bandaríkjadali. Í staðinn bjuggu þeir til nýjan samning þar sem leikaranum voru tryggð réttindi til að stöðva dreifingu myndarinnar, gegn því að hann myndi fyrst klára að leika í myndinni, að því er fram kemur hjá The Hollywood Reporter fréttaveitunni.
Þrátt fyrir þetta fékk Brody aldrei krónu greidda, og framleiðendur stóðu ekki við neinar af hans kröfum.
Brody fer nú fram á algert varanlegt lögbann á dreifingu myndarinnar, sem og bætur fyrir samningsbrot og fleira.
Framleiðendur hafa enn ekki tjáð sig um málið í fjölmiðlum.