Þrjú nýstirni í óeirðamynd

Leikararnir ungu, Will Poulter, Ben O’Toole og Jack Reynor, hafa gengið til liðs við nýjustu mynd Óskarsverðlaunaleikstjórans Kathryn Bigelow, sem fjallar um óeirðirnar í Detroit í Bandaríkjunum árið 1967.

detroit-riots-slice-600x197

Star Wars leikarinn John Boyega bættist einnig í hópinn nýlega.

Um er að ræða glæpa-drama sem gerist á sama tíma og fimm daga óeirðir stóðu yfir í Detroit sumarið 1967.

Stefnt er að frumsýningu árið 2017, á 50 ára afmæli óeirðanna.

Enn er óvíst hver leikur hvaða hlutverk, en talið er að þeir Poulter, O’Toole og Reynor verði í stærstu hlutverkunum.

Poulter sló í gegn í We´re the Millers, og hefur síðan þá leikið í myndum eins og Óskarsverðlaunamyndinni The Revenant ásamt Leonardo DiCaprio.  Jafnframt leikur hann í nýjustu mynd Brad Pitt, War Machine.  Poulter á einnig stóran aðdáendahóp vegna leiks í The Maze Runner seríunni.

Reynor vakti athygli í Transformers: Age of Extinction og fékk góða dóma fyrir leik sinn í Sing Street eftir John Carney. Hann leikur einnig í væntanlegri mynd Ben Wheatley, Free Fire, og mynd Jim Sheridan, The Secret Scripture, en báðar þessar myndir eru taldar eiga eftir að gera góða hluti á haustmánuðum.

O’Toole leikur í nýju Mel Gibson myndinni Hacksaw Ridge sem frumsýnd verður á kvikmyndahátíðunum í Feneyjum og Toronto, og mikils er vænt af.

Hann lék nýlega í The Water Diviner á móti Russell Crowe og leikur einnig í Pirates of the Caribbean: Dead Men Tell No Tales, sem kemur í bíó næsta sumar.