Þrjár íslenskar kvikmyndir á TIFF

NM61247 SENA Vonarstraeti_plakat - 700x1000Þrjár íslenskar kvikmyndir og ein finnsk/íslensk minnihlutameðframleiðsla hafa verið valdar til þátttöku á Toronto International Film Festival. Myndirnar sem um ræðir eru Vonarstræti undir leikstjórn Baldvins Z, stuttmyndin Sjö bátar eftir Hlyn Pálmason, stuttmyndin Tvíliðaleikur eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur og The Grump eftir Dome Karukoski. Vonarstræti mun taka þátt í „Discovery“ dagskrá hátíðarinnar og bæði Sjö bátar og Tvíliðaleikur taka þátt í „Short Cuts International“ dagskrá hátíðarinnar. Þá mun The Grump vera hluti af Contemporary World Cinema dagskrá hátíðarinnar. Hátíðin, sem er stærsta kvikmyndahátíð Norður-Ameríku, fer fram í Toronto í Kanada frá 4. til 14. september.

Síðast en ekki síst hefur Vera Sölvadóttir verið valin til þátttöku á TIFF Talent Lab með verkefni sitt í þróun. Myndin Veisla byggir á smásögu Svövu Jakobsdóttur frá 1967, Veisla undir grjótvegg. Veisla verður framleidd af Guðrúnu Eddu Þórhannesdóttur fyrir hönd Tvíeykis.

Á TIFF Talent Lab leiða stór nöfn úr kvikmyndabransanum umræður um ýmsa þætti kvikmyndagerðar. Umræðurnar eiga það sameiginlegt að miða að því að virkja listræna hlið þátttakenda og skerpa á hæfileikum og um leið auka sjálfstraust þeirra sem kvikmyndagerðarmanna. Í ár mun umræðum verða stjórnað af framleiðandanum Jim Stark, leikstjóranum og handritshöfundinum Claire Denis, leikkonunni Sandra Oh og leikstjóranum og handritshöfundinum Ramin Bahrani.