Kristen Wiig er í viðræðum um að taka að sér stórt hlutverk í næsta leikstjórnarverkefni Ben Stillers, The Secret Life of Walter Mitty, sem eins og lesendur vita stendur til að taka upp að hluta hér á Íslandi. Myndin er endurgerð samnefndrar myndar frá árinu 1947, og mun hún fjalla um starfsmann bókaforlags sem notar ímyndunaraflið til að komast í gegn um leiðindi hversdagsleikans. Wiig mun leika samstarfsfélaga hans, er Mitty dreymir um í keiðindum hversdagsins. Málin flækjast þegar Mitty heldur í ævintýri í leit að týndri filmu, og eflaust endar hann með persónu Wiig á einhvern hátt.
Wiig hefur árum saman leikið aukahlutverk í gamanmyndum og fíflast í Saturday Night Life þáttunum. Hún fékk stórt „búst“ í ferillinn í sumar er myndin Bridesmaids, sem hún lék aðalhlutverkið í og skrifaði handrit að, sló ærlega í gegn. Síðan hefur verkefnum á borði hennar fjölgað verulega, en mest áberandi var það verkefni sem hún vildi ekki taka að sér, Bridesmaids 2.
Einnig hefur bæst í hópinn gamla stjarnan Shirley MacLaine, sem mun leika móður Mitty. Líklega verða tilkynntir fleiri leikarar von bráðar, en myndin á að hefja tökur í apríl. Leikstjórnarverkefni Stillers hafa hingað til verið skemmtilegar myndir, og ef Wiig slæst í hópinn ætti það að tryggja að eitthvað verði hægt að hlæja er myndin kemur út 2013. Svo er það bara bónus ef gula pressan á Íslandi fær eitthvað áhugavert til að fjalla um í einhverjar vikur.