Handritshöfundur Spider-Man, David Koepp, ætlaði sér ekki að skrifa handritið að framhaldinu þrátt fyrir að hafa verið boðnir gull og grænir skógar. Það var því búið að fá þá félaga sem skrifa Smallville sjónvarpsþættina, þá Alfred Gough og Miles Millar, til þess að skrifa handritið að Spider-Man 2. Þá hins vegar vaknaði Koepp upp um miðja nótt, búinn að fá einhverja stórkostlega hugmynd að því hvernig mætti höndla hlutina í framhaldinu. Hann hafði því strax samband við Sony, og sagði þeim að hann væri tilbúinn til þess að skrifa handrit. Þeir tóku því kostaboði hans fegins hendi, og er hann því opinber handritshöfundur myndarinnar. Gough og Millar hinsvegar verða áfram með í dæminu, og munu þeir endurskrifa handrit Koepps þegar hann skilar því af sér. Sony áætlar að frumsýna megi Spider-Man 2 þann 7. maí 2004.

