Everest hefur halað inn 166 milljónir Bandaríkjadala í miðasölunni um heim allan síðan hún var frumsýnd 18. september.
Myndin kostaði „aðeins“ 55 milljónir dala í framleiðslu og því eru tekjurnar orðnar þrefalt hærri en sú upphæð. Tekjur myndarinnar nema 111 milljónum dala, eða um 14 milljörðum króna.
Til samanburðar kostaði næstvinsælasta mynd Baltasars, 2 Guns, 61 milljón dala og þénaði hún tæpar 132 milljónir dala í miðasölunni, sem er rúmlega tvöfalt hærri upphæð. Tekjur hennar námu 71 milljón dala, eða tæpum 9 milljörðum króna.
Þriðja vinsælasta mynd Baltasars er Contraband. Hún náði inn 96 milljónum dala í miðasölunni um heim allan. Kostnaður hennar nam 25 milljónum dala og urðu tekjurnar því næstum fjórföld sú upphæð. Alls námu miðasölutekjur hennar 71 milljón dala, sem er jafnmikið og 2 Guns náði inn, samkvæmt Boxofficemojo.com.
Auk þess að vera vinsælasta mynd Baltasars er Everest einnig fyrsta mynd hans sem rýfur 100 milljón dala múrinn en því hefur hún náð utan N-Ameríku.
Í N-Ameríku hefur Everest náð inn rúmum 40 milljónum dala en utan hennar 126 milljónum dala. Til samanburðar námu tekjur 2 Guns 75 milljónum dala vestanhafs og Contraband 66 milljónum dala. Everest á því enn nokkuð í land með að ná þeim á heimamarkaðinum.