Leikstjóranum frábæra Terry Gilliam hefur ekki tekist að setja saman mynd síðan hann gerði Fear and Loathing in Las Vegas og það er orðið alltof langt síðan. Nú ætlar hann að reyna aftur, og þá með myndinni The Brothers Grimm, sem mun skarta þeim Matt Damon og Heath Ledger í aðalhlutverkum. Mun hún fjalla um bræðurna Grimm, en það voru einmitt þeir sem tóku saman öll ævintýrin og þjóðsögurnar á sínum tíma. Í myndinni eru þeir svindlarar sem ferðast bæ úr bæ, þykjast vera særingamenn og hetjur, og ná peningum út úr bæjarbúum. Þeir lenda síðan í alvöru hættum, og þá þurfa þeir að finna innra með sér hugrekki og heiður til að geta sigrast á þeim. MGM kvikmyndaverið framleiðir myndina, og stefnt er að því að frumsýna hana sumarið 2004.

