Framleiðslufyrirtæki Brad Pitt, Plan B Entertainment, hefur gert það gott að undanföru og kom það fyrirtæki m.a. að Óskarsverðlaunamyndinni 12 Years A Slave. Fyrirtækið mun næst ráðast í gerð sannsögulegrar myndar um hrottalega nauðgun sem átti sér stað í Ohio árið 2012.
Málið er í stuttu máli á þann veg að sextán ára stúlka kærði tvo jafnaldra sína fyrir grófa nauðgun í Steubenville í Ohio, í ágúst 2012. Hún hafði hitt þá í samkvæmi, þar sem henni voru gefin nauðgunarlyf og síðan fóru þeir með hana á milli húsa þar sem þeir nauðguðu henni og niðurlægðu.
Atvikið var síðan þaggað niður af samfélagi bæjarins og yfirvöldum skólans í bænum. Það var ekki fyrr en hakkararnir í Anonymous tóku málin í sínar hendur og sögðu frá verknaðinum að piltarnir fengu loks refsingu. Annar af piltunum tveimur sem dæmdir voru var nýverið látinn laus vegna fyrirmyndarhegðunar. Hann sat inni í tíu mánuði.
Deric Lustutter, meðlimur tölvuhakkarahópsins Anonymous, bíður nú dóms en hann gæti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsisvist fyrir að hafa rænt gögnum sem varða málið.
Eins og fyrr segir þá hefur fyrirtækið Plan B keypt kvikmyndaréttinn á grein um málið sem birtist í tímaritinu Rolling Stone. Í greininni segir Lostutter frá því að hann hafi séð óréttlæti sem hann varð að grípa inn í. „Einelti fer í taugarnar á mér“ sagði Lostutter. Hakkarinn hefur staðfest að myndin verði gerð en vill þó ekki tjá sig meira um málið.