Leikstjórinn Danny Boyle er nú í lokaviðræðum um að leikstýra nýrri kvikmynd um stofnanda Apple, Steve Jobs. Handritið að myndinni er skrifað af Aaron Sorkin, sem m.a. skrifaði myndina The Social Network um stofnanda Facebook, Mark Zuckerberg.
Leikstjórinn David Fincher var fyrst í viðræðum um að stýra myndinni en samningar náðust ekki vegna launamála og áætlanir hans um markaðssetningu myndarinnar.
Búist er við allt öðruvísi nálgun frá Boyle á viðfangsefnið, en hann á að baki kvikmyndir á borð við Trainspotting, 127 Hours og Slumdog Millionare.
Það er ekki langt síðan kvikmyndin Jobs, með Ashton Kutcher í titilhlutverkinu var frumsýnd. Myndinni var ekki vel tekið og var Kutcher tilnefndur til Razzie-verðlauna fyrir frammistöðu sína.
Sagan um Steve Jobs er stórmerkileg og fékk hann snemma áhuga á tölvum. Jobs stofnaði Apple fyrirtækið í bílskúrnum heima hjá sér aðeins 21 ára gamall ásamt Steve Wozniak árið 1976. Fyrstu tölvur þeirra Apple I og Apple II komu svo á markað ári seinna.
Það var svo árið 1996 að Steve tók aftur við forstjórastöðu Apple og hefur uppgangur fyrirtækisins verið með ólíkindum síðan. Steve stóð fyrir þróun og uppbyggingu á tækjum eins og iMac, iPod, iPhone og iPad sem skilað hafa fyrirtækinu methagnaði hvað eftir annað.
Jobs lést fyrir aldur fram árið 2011, 56 ára að aldri.