Íslensku kvikmyndirnar Börn og Foreldrar, eftir Ragnar Bragason og leikhóp Vesturports, náðu þeim einstaka árangri að vera á meðal þeirra tíu mynda sem áhorfendur kvikmyndahátíðarinnar í Rotterdam völdu sem bestu myndir hátíðarinnar. Börn hafnaði í fimmta sæti en Foreldrar í því níunda en tæplega hundrað myndir eru sýndar á hátíðinni sem stendur nú yfir.
Það er mjög ánægjulegt að áhorfendur annars staðar í heiminum kveiki svona sterklega á báðum myndunum, segir Ragnar Bragason um þessa velgengni sem hann bjóst ekki við. Ég var ekki að gera mér sérstakar vonir, það var uppselt á allar sýningar á báðum myndunum og viðbrögðin góð en í Rotterdam er sýnt mikið af góðum myndum.
Á hátíðinni sjálfri fékk Ragnar a.m.k. fjögur boð á aðrar kvikmyndahátíðir víða um heim með myndirnar tvær. Þessi íslenski veruleiki í myndunum virðist virka víða, fólk er alls staðar eins.
Heimildir fengnar úr Morgunblaðinu

