Hin heimsfræga japanska myndasögusería Bleach eftir Tite Kubo hefur loks fengið græna ljósið og er núþegar byrjað að skrifa handritið að myndinni. Bleach, fyrir þá sem ekki vita, er ein vinsælasta og sigursælasta myndasaga japanskra ungmenna sem hefur selt rúmlega 75 milljónir eintaka um allan heim og hefur samnefndi sjónvarpsþátturinn náð upp í rúmar 16 seríur.
Í nýlegu viðtali við tímaritið Variety tilkynnti framleiðandinn og leikstjórinn Peter Segal (50 First Dates, The Longest Yard) að að handritshöfundur myndarinnar sé fundinn, en það er hann Dan Mazeau (Wrath of the Titans). Segal lýsti einnig yfir að hann ber mikla virðingu fyrir efninu, heimi sögunnar og höfundi myndasagnanna og fullvissar aðdáendur myndasagnanna um að hann vilji fara rétt að við gerð myndarinnar.
Í stuttu máli fjallar Bleach um 14 ára seinheppna japanska unglinginn Ichigo sem sogast í átök milli heim síns og hinn svokallaða Soul Society-heims. Soul Society er í raun lífið eftir dauðan þar sem Dauðaguðirnir (Shinigami) vinna við að leiða fólk í heiminn, en einnig þurfa þeir að kljást við týndar sálir (Hollows) sem valda miklum usla í okkar heimi. Ichigo þarf að leysa einn dauðaguðinn af og kynnist þannig heimi Soul Society og báráttunni við týndu sálirnar.
Japanskar myndasögur hafa verið að fanga athygli framleiðenda í Hollywood nýlega en mörg verkefnin hafa aldrei komist lengra en í forvinnslu- þar má nefna Death Note (nú í umsjá Shane Black), Ghost in the shell, Pluto, og nú nýlega kom fram að Akira væri nánast dauð (en Warner Bros. eru nú framleiðendur Bleach-myndarinnar).
Lengi hefur vantað ástúðina og virðinguna gagnvart efninu og Segal virðist vera náungi sem skilur efnið og sögusvið þess. Persónulega finnst mér eins og efnið gæti virkað betur í kvikmyndaformi því þá þarf að breyta formúlu Bleach aðeins og þurrka burt allt það sem telst ónauðsynlegt í söguþræðinum (Tite Kubo er þekktur fyrir að skapa nýjar persónur til að koma í veg fyrir ritstíflur og lengir þannig Bleach-söguþráðinn ónauðsynlega á köflum).
Hvað finnst notendum, er Segal rétti maðurinn í djobbið og hafa einhverjir kynnt sér myndasöguna (eða jafnvel séð þættina)?