Hæst launaði leikari vorra tíma, Dwayne Johnson, þeysist nú um heiminn þveran og endilangan til að kynna nýjustu skrímslamynd sína, Rampage, þar sem hann leikur á móti einskonar hvítum King Kong apa. Myndin kemur í bíó á morgun, 13. apríl.
Á kynningartúrnum fær Johnson ýmsar skemmtilegar spurningar, bæði um þessa mynd sem og framtíðarverkefni. Eitt þessara verkefna er kvikmyndin Black Adam, sem aðdáendur Johnson og DC Comics teiknimyndasagna halda vart vatni yfir, og vija fá sem allra fyrst í bíó.
Persónan, sem Johnson er sagður hafa samþykkt að leika, átti upphaflega að koma fyrir í myndinni Shazam, en sá orðrómur var kveðinn í kútinn. En það þýðir þó ekki að verkefnið sé dautt.
“Handritið barst, það er frábært og við erum að vinna í því,” sagði Johnson við Yahoo! Movies. “Ef allt smellur eins og við viljum, þá gæti þetta orðið 2019 kvikmynd.”
Og hann hélt áfram. “Hér er ótrúlega flott tækifæri á ferðinni fyrir okkur að ná rétta tóninum í söguna, og tryggja að persónan sé grjóthörð.”
Orðrómur hefur gengið milli manna um að Black Adam muni koma við sögu í Suicide Squad 2, sem gæti farið í tökur fljótlega, en það er þó enn allt óstaðfest. Á heimasíðu DC comics segir um Black Adam að hann svífist einskis við að eyðileggja hvaðeina sem stendur í vegi hans, en Adam er góður gæi, sem snerist yfir til myrku hliðarinnar og er nú þorpari af verstu sort.
Töframannaráðið valdi Balck Adam sem meistara sinn, og úthlutaði honum valdi til að fremja töfra. En þetta ruglaðist allt í hausnum á hetjunni, og í staðinn fyrir að nota kraftana til að hjálpa öðrum, þá ákvað hann að nota þá til illra verka. Hann snerist gegn töframannaráðinu og var fangelsaður í þúsund ár. En nú er hann frjáls á ný, og vill stjórna heiminum, öllum göldrum þar á meðal. Það eina sem stendur í veginum er Shazam! Nýi töframeistarinn, og Black Adam gerir hvað hann getur til að steypa honum af stóli.