Golden Globe verðlaunahafinn Michael Keaton, sem vann til verðlauna nú á sunnudaginn fyrir hlutverk sitt í Birdman, mun snúa aftur í framhaldi af myndinni Beetlejuice, sem er í vinnslu, að sögn handritshöfundarins Seth Grahame-Smith.
Keaton, sem er 63 ára, lék „líf-særingarmanninn“ Beetlejuice, sem hræðir menn í burtu, til að draugahjón geti haldið áfram að búa í húsi, í upprunalegu myndinni frá árinu 1988.
Unnið hefur verið að myndinni síðastliðin þrjú ár, en Tim Burton, sem leikstýrði þeirri upprunalegu, mun sömuleiðis verða við stjórnvölinn í þessari.
Myndin verður framhald, en ekki endurræsing, og persóna Beetlejuice verður notuð hóflega, að því er Grahame-Mith segir í samtali við The Hollywood Reporter, og Independent greinir frá, en það sé nokkuð sem Keaton sjálfur hafi stungið upp á, en hann er að sögn Grahame-Smith, „meira en áhugasamur“ um að endurtaka leikinn, eða svo lengi sem Burton er með einnig.
Í Birdman leikur Keaton gamla Hollywood stjörnu sem má muna sinn fífil fegurri, en hann hefur hlotið mikið lof fyrir leik sinn og er talið að hann fái tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir frammistöðuna.
Beetlejuice vann Óskarsverðlaun fyrir förðun, en í myndinni léku einnig Alec Baldwin, Geena Davis, Catherine O’Hara, Jeffrey Jones og hin 17 ára gamla Winona Ryder.