Tvíeykið úr netþáttunum Bíótal hefur gefið út glænýtt innslag þar sem svonefndi „framhaldsþríleikur“ Star Wars myndanna er í brennidepli. Þar er um ræða myndirnar The Force Awakens, The Last Jedi og The Rise of Skywalker, en sú síðastnefnda var gefin út síðastliðinn vetur og var nýlega gefin út á stafrænu formi. Bíótal er í umsjón þeirra Sindra Gretarssonar og Tómasar Valgeirssonar og hóf þátturinn upphaflega göngu sína árið 2008 á Kvikmyndir.is.
Helstu umræðupunktar þáttarins að sinni snúa að upprunalegri sköpun kvikmyndagerðarmannsins og ofurframleiðandans George Lucas og hvernig framkvæmdin á áframhaldinu hefur heppnast í höndum stórrisana hjá Disney. Eins og þekkt er keypti Disney Stjörnustríðsmerkið og allan Lucasfilm lagerinn árið 2012 á 500 milljarða króna.
Viðbrögð netverja og ára(tuga)langra Stjörnustríðsaðdáenda við nýju kvikmyndunum hafa verið vægast sagt blendin, eins og gengur og gerist þegar um er að ræða einn ef ekki stærsta kvikmyndabálk sögunnar.
Þá þýðir ekki annað en að spyrja: Er Star Wars endanlega orðið batteríslaust eða er framtíð vörumerkisins og möguleika þess bara rétt að byrja?
Þátturinn er um 10 mínútur að lengd og má finna hér að neðan.
Eldri Bíótalsþættir eru aðgengilegir HÉR.