Aðsóknartekjur kvikmyndahúsa árið 2015 voru kr. 1.551.569.621 en það er 4,44 prósenta aukning frá árinu 2014 þegar tekjur námu kr. 1.485.618.475. Fjöldi þeirra sem mættu í kvikmyndahús á árinu 2015 var 1.382.494 manns, sem er aukning um 2,8 prósent frá árinu 2014 en þá var fjöldi þeirra sem mættu í kvikmyndahús 1.344.569.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá FRISK, Félagi Rétthafa í Sjónvarps- og Kvikmyndaiðnaði.
„Það má því segja að bíóárið 2015 hafi verið einkar gott þar sem aðsókn í kvikmyndahús hefur verið að dragast saman undanfarin ár en að þessu sinni fer aðsókn upp á milli ára í fyrsta skipti síðan 2009 sem eru jákvæð tíðindi. Á árinu voru sýndar fjórar myndir þar sem aðsókn var yfir 50.000 manns sem er fátítt. Þá raða tvær stærstu myndirnar sér á lista yfir topp tuttugu vinsælustu kvikmyndir á Íslandi frá upphafi mælinga. Það eru myndirnar Everest, sem varð vinsælasta kvikmynd landsins með rúmar 89 milljónir í tekjur, og Star Wars: The Force Awakens, sem var með tæpar 80 milljónir í tekjur um áramótin þótt hún hafi ekki verið frumsýnd fyrr en 18. desember síðastliðinn.
Sú síðarnefnda er enn í sýningu og munu því heildartekjur hennar verða hærri. Fyrsti sýningardagur kvikmyndarinnar var jafnframt sá tekjuhæsti í íslenskri kvikmyndasögu og var hún þá sýnd allan sólarhringinn,“ segir í tilkynningunni.
Lægra bíóverð en í löndunum í kringum okkur
Ennfremur segir að meðalverð á bíómiða hafi verið um 1.123 kr., sem er um 1,6 prósenta hækkun frá árinu á undan og er verð bíómiða á Íslandi sambærilegt við meðalverð bíómiða í Bandaríkjunum (áætlað að lágmarki 8,34 Bandaríkjadalir á árinu 2015, þ.e. um 1.098 kr.). „Miðaverð hér er lægra en í löndunum í kringum okkur en til samanburðar má geta þess að meðalverð í Bretlandi árið 2014 var 1.299 kr. og í Danmörku um 1.540 kr.“
Fleiri íslenskar myndir
Sýningum á íslenskum kvikmyndum (þ.m.t heimildarmyndum) fjölgaði í kvikmyndahúsum árið 2015 þar sem þær voru 16 talsins miðað við 9 kvikmyndir árið á undan. Þessa fjölgun má m.a. rekja til þess að nú eru upplýsingar um sýningar í Bíó Paradís með í fyrsta sinn.
„Þrátt fyrir fjölgun voru tekjur íslenskra kvikmynda umtalsvert minni árið 2015 eða 73.824.318 kr.sem er um 63 prósenta lækkun frá árinu á undan þegar íslenskar myndir höluðu inn tæpar 197 milljónir króna. Árið 2014 var reyndar einkar gott ár en þá var m.a. kvikmyndin Vonarstræti stærsta mynd ársins. Aðeins ein íslensk mynd kemst á topp tuttugu listann yfir vinsælustu myndir ársins 2015 en það er kvikmyndin Hrútar sem var fjórtánda vinsælasta mynd ársins með heildartekjur upp á rúmar 29 milljónir króna og er myndin enn í sýningu eftir 32 vikur.“