Hvað eiga Billy Bob Thornton, Kim Basinger, Brandon Routh, Ashley Olsen og Lou Pucci sameiginlegt? Þau munu öll leika í kvikmyndinni The Informers.
Myndin byggist á bók eftir Bret Easton Ellis og kom hann sjálfur einnig við sögu við gerð handritsins. Hún gerist í Los Angeles á níunda áratugnum og segir frá viku í lífi einstaklinga sem tengjast á einhvern hátt. Thornton leikur stjórnanda kvikmyndavers, Basinger leikur konu hans og Olsen hjákonu hans. Pucci leikur mannræningja sem mun eflaust ræna einhverjum af fyrrnefndum. Öllu óljósari er tenging karaktersins sem Routh leikur, en sá mun vera vampíra.
Myndirnar American Psycho, The Rules of Attraction og Less Than Zero voru allar byggðar á bókum eftir Bret Easton Ellis.
Þetta er fyrsta hlutverk Olsen í þrjú ár og þar sem stúlkan er orðin 21 árs velta menn fyrir sér hversu mikið hold leikstjórinn ætlast til að hún sýni.

