Skyfall, nýjasta James Bond myndin sem frumsýnd var hér á landi um helgina og víðar, sló hressilega í gegn í Bretlandi um helgina og sló nokkur aðsóknarmet á frumsýningarhelgi, þar á meðal stærsta opnun á 2D mynd og aðsóknarmesta mynd á laugardegi á frumsýningarhelgi, en myndin er sú næst aðsóknarmesta á frumsýningarhelgi frá upphafi í Bretlandi. Tekjur námu 20,1 milljón Sterlingspunda. Einungis Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 2. er aðsóknarmeiri en Skyfall á frumsýningarhelgi.
Myndin var einnig aðsóknarmest í 24 öðrum löndum, en myndin verður ekki frumsýnd í Bandaríkjunum fyrr en 9. nóvember.
Nú er spurning hvort að velgengnin haldi áfram og myndin slái út vinsælustu Bond mynd allra tíma, Casino Royale, en hún þénaði 586 milljónir Bandaríkjadala í bíó um heim allan.