Benicio Del Toro með tvær nýjar

Hinn frábæri Benicio Del Toro er með tvær nýjar kvikmyndir í undirbúningi. Hann mun leika aðalhlutverkið í kvikmyndinni 21 Grams á móti Naomi Watts og Sean Penn. Titill myndarinnar vísar til þeirra 21 gramma sem talið er að líkaminn léttist um þegar hann deyr. Því hefur verið haldið fram að þetta 21 gramm sem hverfur, sé þyngd sálarinnar sem sé að yfirgefa líkamann. Lítið er vitað um hinn raunverulega söguþráð myndarinnar, en vitað er að hún fjallar á einhvern hátt um konu sem er að kljást við fyrrum fanga, og ástmann sem stöðugt heldur framhjá henni. Myndinni verður leikstýrt af Alejandro Gonzales ( Amores Perros ) og tökur á henni hefjast í desember. Del Toro mun síðan kljást við ekki minni mann en Ernest Hemingway. Hann mun leika aðalhlutverkið í myndinni To Have And Have Not, sem byggð verður á samnefndri skáldsögu Hemingway. Í myndinni leikur Del Toro sjómann einn á Flórída, sem lendir í fjárhagsvandræðum og á í erfiðleikum með að halda uppi fjölskyldu sinni. Í neyð sinni snýr hann sér að smygli, en hinir skuggalegu félagar hans í smyglinu eru fljótir að koma honum í vandræði. Myndinni verður leikstýrt af Tod Williams ( The Adventures Of Sebastian Cole )