Batmanbíllinn líkist skriðdreka

Ný mynd af mest umtalaða farartæki kvikmyndasögunnar leit dagsins ljós í dag. Við erum að sjálfsögðu að tala um Batmanbílinn en hann þróast með hverri kvikmynd sem gefin er út um Leðurblökumanninn og að þessu sinni líkist hann frekar skriðdreka heldur en bíl.

Leikstjórinn Zack Snyder hefur verið duglegur að gefa aðdáendum smjörþef af því sem er að gerast í undirbúningi og á tökustað myndarinnar og birti hann mynd af nýja Batmanbílnum í allri sinni dýrð í dag. Hér að neðan má sjá mynd af bílnum/skriðdrekanum.

batman

Batman v Superman: Dawn of Justice verður frumsýnd fyrr en áætlað var. Til stóð að frumsýna myndina þann 6. maí, 2016 en vegna áreksturs við þriðju myndina um Kaptein Ameríku þá verður myndinni flýtt um tæpar sex vikur, eða þann 25. mars, 2016.

Með aðalhlutverk í myndinni fara þau Ben Affleck, Henry Cavill og Gal Gadot, en Zack Snyder leikstýrir. Nafnið gefur að kynna upphafið af ofurhetjuteyminu Justice League, sem er eitt vinsælasta og stærsta ofurhetjulið sem þekkst hefur, en í röðum þeirra eru Batman, Superman, Wonder Woman, Green Lantern, The Flash og fleiri.