Batman v Superman í endurbættri útgáfu

Stórmyndin Batman v Superman: Dawn of Justice verður gefin út í endurbættri útgáfu á HBO Max streymið á næsta ári. Tilefnið er að hita upp fyrir hina væntanlegu útgáfu Zacks Snyder á Justice League, sem margir aðdáendur hafa beðið óþreyjufullir eftir.

Justice League, sem gefin verður út í fjórum hlutum, heldur áfram sama þræði og var kynntur í Man of Steel og Batman v Superman. Viðtökur við túlkun Snyders á DC hetjunum frægu hefur víða verið umdeild en hefur sterkur aðdáendahópur magnast með ári hverju. Viðbrögð við Batman v Superman urðu til að mynda jákvæðari en við frumsýningu eftir að Snyder afhjúpaði þriggja tíma „Ultimate“ útgáfu sína sem ber aldursstimpilinn R (17 ára) vestanhafs.

Snyder tilkynnti sjálfur á Twitter að vinnsla er hafin á því að fínpússa Ultimate-útgáfuna nema nú með gjörbreyttum hlutföllum rammans.

Áður hefur myndin verið einungis fáanleg í breiðtjaldsforminu (2:4:1) en nú hyggst Snyder fylla heimaskáinn og gefa hana út í „IMAX“ hlutföllum (1.43:1).

Hermt er að áhorfandinn sjái allt að 40% aukningu á rammanum og má geta þess að báðar BvS og Justice League voru skotnar í þessum hlutföllum.

Ringulreiðin og hreyfingin

Hreyfingin #ReleaseTheSnyderCut skilaði aldeilis glæstum árangri og uppskar það gífurlegan fögnuð hjá aðdáendum leikstjórans að loksins verði hægt að sjá afraksturinn sem honum tókst ekki að klára.

Saga þessarar hreyfingar og ákvörðunartöku kvikmyndaversins Warner Bros. og HBO Max er lyginni líkust. Frá upphafi útgáfuársins var orðið ljóst að ekki væri allt með felldu með þessa þriðju DC stórmynd frá Snyder, og að framleiðslan væri hreint í heljarinnar rugli.

Á meðan á klippiferli Justice League stóð varð leikstjórinn að stíga frá verkefninu, en um þetta leyti skall harmleikur á þegar dóttir hans svipti sig lífi. Segja sumar heimildir að kvikmyndaverið Warner Bros. hafi einfaldlega rekið Snyder á meðan á sorgarferlinu stóð og hafi komið bein tilskipun frá framleiðanda að Justice League þyrfti að vera léttari, meira í líkingu við Marvel-myndirnar og alls ekki lengri en 120 mínútur.

Þá var Joss Whedon (Buffy, Avengers, Avengers: Age of Ultron) ráðinn til að eiga við handritið, leikstýra auka- og endurtökum (þá með skeggjuðum Cavill) og hafa yfirsýn yfir lokasamsetningu. Útkoman er sú sem áhorfendur sáu og þekkja í dag, en strax í kjölfar frumsýningarinnar fóru margir hverjir að krefjast þess að Warner Bros. gefi út upprunalegu útgáfuna af myndinni.

Óhætt er að segja að Justice League hafi ekki lent með miklum látum þegar myndin leit dagsins ljós um veturinn árið 2017. Aðsókn myndarinnar stóð langt undir væntingum framleiðenda, áhorfendur og gagnrýnendur ypptu flestir öxlum og þótti flestum myndin vera þunn, bersýnilega sundurlaus og sérstaklega illa unnin í sumum tölvubrellum.

Ýmist grín hefur verið gert á kostnað framleiðenda, ekki síst fyrir að neyðast til að fá skeggjaðan Superman í tökur og raka hann með aðstoð tölvubrellna eftirá. Ástæðan, eins og margir hverjir eflaust vita, var sú að leikarinn Henry Cavill var í miðjum tökum á Mission: Impossible – Fallout og mátti ekki samkvæmt samningi raka sig fyrir aukatökurnar á Justice League. Niðurstaðan á stafræna rakstrinum hefur getið af sér ófáa brandara og eftirminnilega ramma á internetinu.

Ekki er þó enn komin dagsetning á útgáfu nýju Justice League, né BvS, en reikna margir með að það verði í kringum næsta haust.

Í öðrum DC fréttum er von á Wonder Woman 1984 í kvikmyndahús hér á Íslandi þann 16. desember.

Gal Gadot snýr aftur til leiks ásamt þeim Chris Pine, Connie Nielsen og Robin Wright, og mætir þeim Kristen Wiig og Pedro Pascal í kröppum dansi. Það er Patty Jenkins sem leikstýrir myndinni líkt og fyrri lotu, en upprunalega myndin frá 2017 sópaði til sín góðu lofi gagnrýnenda og áhorfenda auk þess að hala inn rúmar 820 milljónir Bandaríkjadala á heimsvísu.

Af fyrstu viðbrögðum að dæma eru margir hæstánægðir með framhaldið.