Óskarsverðlaunaleikarinn Ben Affleck er sagður hafa verið settur í bann á spilavíti í Las Vegas í Bandaríkjunum, þar sem honum hefur verið bannað að spila fjárhættuspilið 21, eða Black Jack eins og það heitir einnig.
Öryggisverðir stöðvuðu Affleck fyrr í þessari viku samkvæmt Sky News vefsíðunni, þar sem hann var að spila á Hard Rock spilavítinu í borginni, og sögðu að hann væri „of góður“ í spilinu, samkvæmt manni sem er tengdur leikaranum.
Affleck var í framhaldinu tjáð að hann mætti spila alla aðra leiki en 21.
Aðrar heimildir herma að yfirmenn spilavítisins hafi haldið að Affleck hafi verið að telja spil – en með því fá spilarar forskot og geta spáð fyrir um hvaða spil birtast næst hjá gjafaranum við spilaborðið.
Það er ekki ólöglegt að telja spil, en það er illa liðið af spilavítunum.
Leikarinn er þekktur fyrir áhuga sinn á fjárhættuspilum og vann til dæmis meira en 350 þúsund Bandaríkjadali ( tæpar 40 milljónir króna ) þegar hann vann meistaramótið í póker í Kaliforníu árið 2004.
Affleck, sem er 41 árs gamall, lék fjárhættuspilara í myndinni Runner Runner frá árinu 2013.
Í frétt Sky News vefsíðunnar er Affleck sagður hafa verið í fríi í Vegas með eiginkonu sinni áður en hann byrjar að leika í framhaldsmynd Man of Steel, þar sem hann fer með hlutverk Batman.